Samþykkt á aðalfundi 1982.

1. grein.

Félagið nefnist "Taflfélag Garðabæjar" og hefur aðsetur í Garðabæ. Skammstöfun félagsins er TG. Tilgangur félagsins er að auka þekkingu og áhuga á manntafli með hverjum þeim hætti er stjórn félagsins og aðalfundir ákveða.

2. grein.

Aðalfund félagsins skal halda að vori í lok vetrarstarfs. Aðalfundur hefur úrskurðarvald í öllum málum félagsins. Á aðalfundi skal kosin stjórn, gerð grein fyrir fjárreiðum félagsins, rædd starfsskýrsla fráfarandi stjórnar, lagabreytingar og önnur þau mál tekin fyrir sem félagsmenn óska að ræða.
Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum og hafa atkvæðisrétt fullgildir félagar sem eru skuldlausir við félagið.

3. grein. 

Stjórn skal skipuð þremur aðalmönnum og tveimur varamönnum. Kosning fer þannig fram að kosnir eru fimm stjórnarmenn í einni kosningu. Stjórnin skiptir síðan sjálf með sér verkum. Stjórnin kemur fram fyrir hönd félagsins og ræður öllum málum milli aðalfunda.

4. grein.

Stjórn skal skipa æfingastjóra til að hafa yfirumsjón með skákæfingum og mótsstjóra til að hafa yfirumsjón með framkvæmd skákmóta á vegum félagsins. Stjórn er einnig heimilt að skipa trúnaðarmenn í skólum á félagssvæðinu og annars staðar þar sem ástæða þykir til.

5. grein.

Lögum þessum má eingöngu breyta á aðalfundi og hefur hann úrskurðarvald í öllum vafaatriðum um túlkun þeirra.